Umhverfisráðuneytið styrkir verkefni NÍN

Hildur Þórhallsdóttir
Hildur Þórhallsdóttir

Mikið hefur verið lagt upp úr íbúasamráði innan verkefnisins Nýsköpun í norðri (NÍN), en haldnir hafa verið 12 íbúafundir innan þess, auk þess sem rýnihópar eru að störfum með það að markmiði að greina tækifæri til skemmri og lengri tíma á sviðum umhverfis, mannauðs og landnýtingar.

Í þessu ferli hefur komið í ljós talsverður áhugi íbúa á stofnun þjóðgarðs á friðlýstu svæði við Mývatn og Laxá. Óskað var eftir stuðningi umhverfisráðuneytisins til að kanna betur fýsileika slíks og fékkst styrkur að upphæð 2 milljónir króna. Til verksins hefur verið ráðin Hildur Þórhallsdóttir frá Vogum í Skútustaðahreppi. Hildur er menntaður stjórnmálafræðingur og lauk nýlega meistaranámi við Edinborgarháskóla sem nefnist Energy, sustainability and society.

 Hildur mun á næstu vikum ræða við landeigendur og aðra haghafa á svæðinu og er áhugasömum bent á að hafa samband við hana í netfangið hildurastath@gmail.com  eða í síma 869 2088.