Tryggvi Þórhallsson, lögmaður, hefur verið ráðinn sem lögfræðingur hjá Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. Sveitarfélögin sameinast formlega í lok maí á næsta ári og munu þá mynda stærstu skipulagsheild landsins, samtals um 12 þúsund ferkílómetra.
Verkefni Tryggva munu m.a. lúta að mótun stjórnsýslu sameinaðs sveitarfélags, endurskoðun samninga, samstarfi skólastofnana þvert á skólastig og uppbyggingu hringrásarhagkerfis svæðisins tengt mótun loftslags- og innkaupastefnu sameinaðs sveitarfélags.
Tryggvi Þórhallsson hefur síðustu ár starfað sem lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Reynsla hans spannar vítt svið löggjafar sem varðar sveitarfélög, s.s. sveitarstjórnarlög, stjórnsýslulög og upplýsingalög. Með ráðningu Tryggva vill sameinað sveitarfélag leggja áherslu á að nýta þann sveigjanleika sem er til staðar í lagaramma sveitarfélaga og virkja til framþróunar þá möguleika sem breytt skipan býður upp á.
Tryggvi hefur tekið þátt í fjölmörgum starfshópum og nefndum sl. ár. Þar má t.d. nefna samvinnuhóp um framtíðarskipan húsnæðismála, samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um húsnæðismál og starfshóp um málefni aldraðra. Tryggvi gegnir í dag formennsku í samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um skýra verka- og ábyrgðarskiptingu í opinberri þjónustu.
Tryggvi mun hefja störf hjá sveitarfélögunum í helmingsstarfi þann 1. nóvember n.k., ásamt því að ganga frá fyrirliggjandi verkefnum hjá Sambandi íslenska sveitarfélaga. Hann verður að fullu kominn til starfa fyrir Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit um áramót.