Undirbúningsstjórn og starfshópar vinna hörðum höndum að því að undirbúa sameinað sveitarfélag Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Starfshópar vinna að útfærslu verkefna eftir málasviðum þar sem m.a. er fjallað um þau verkefni sem nauðsynlegt er að leysa fyrir farsælan framgang nýs sveitarfélags, gjaldskrár og þjónustu. Undirbúningsstjórnin hefur haft nýtt stjórnskipulag og mannauðsmál í forgangi undanfarnar vikur.
Sigríður Indriðadóttir mannauðsráðgjafi hefur átt víðtækt samráð við starfsfólk og lagt fram minnisblað með hugmyndum að uppbyggingu stjórnskipulags. Þær hugmyndir eru í samræmi við þær tillögur sem kynntar voru í aðdraganda sameiningarkosninganna. Markmið þeirra tillögu var að byggja upp einfalt og skilvirkt stjórnskipulag sem byggir á styrkleikum beggja sveitarfélaga og styður við þau verkefni sem sveitarfélögin eru með í forgangi.
Í vinnu Undirbúningsstjórnar hefur þróast umræða um að byggja stjórnskipulag ný sveitarfélags á dreifingu valds og verkefna. Í því felist m.a. það nýmæli að ekki verði ráðið í hefðbundið hlutverk sveitarstjóra heldur verði ráðnir þrír framkvæmdastjórar sem beri hver ábyrgð á sínu sviði. Framkvæmdastjórar myndi framkvæmdaráð sveitarfélagsins og starfi náið með sveitarstjórn.
Mikil vinna hefur verið lögð í að móta stjórnskipulagið á myndrænan hátt varpa ljósi á ýmis álitamál sem tengjast hugmyndum að nýju stjórnskipulagi og hvernig væri hægt að mæta þeim. Undirbúningsstjórn er sammála um að halda áfram þróun stjórnskipulags sem byggi á þremur sviðum og þremur stjórnendum, án hefðbundins sveitarstjóra. Á síðasta fundi var sveitarstjórum, oddvitum og ráðgjöfum er falið að útfæra og kostnaðarmeta nýtt stjórnskipulag á grundvelli svokallaðs tilraunaákvæðis í 132. gr. sveitarstjórnarlaga og afla umsagnar sveitarstjórnarráðuneytisins um þá leið.