Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar sendu inn sameiginlega umsögn um tillögu að reglum um fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, sem er til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda:
„Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar leggja ríka áherslu á að þeim sveitarfélögum sem takast á við sameiningu sé tryggður nægjanlegur fjárhagslegur stuðningur til að takast á við þau umfangsmiklu og kostnaðarsömu verkefni sem slíku ferli fylgir. Í því felst að fá stuðning við undirbúning og innleiðingu breytinganna, framlög til uppbyggingar stjórnsýslu, þróunar þjónustu og samfélags og til jöfnunar á aðstöðumun sveitarfélaga.
Markmið reglnanna er að styrkja sveitarstjórnarstigið með því að stuðla að sameiningum sveitarfélaga og búa til sterkari skipulagsheildir. Tillögurnar byggja á þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033. Þar er m.a. það markmið að sveitarfélög hafi ávallt nægilegan styrk til að takast á við áskoranir framtíðarinnar, svo sem aukna sérhæfingu, breytta aldurssamsetningu, búferlaflutninga, tæknibreytingar, þróun á sviði umhverfis- og loftslagsmála, lýðheilsumál o.fl. Mikilvægt er að gæta samræmis á milli markmiða í þingsályktunartillögu ráðherra og úthlutun framlaga. Í ljósi þess leggja sveitarstjórnirnar til að heimilt verði að sækja um framlög til sérstakra þróunar- og nýsköpunarverkefna sem eru í samræmi við markmið stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga.
Verði sameining Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar samþykkt í atkvæðagreiðslu verður til stærsta sveitarfélag Íslands, sem nær yfir um 12% landsins. Landmikil sveitarfélög takast oft og tíðum á við flókin viðfangsefni, sér í lagi þegar kemur að skipulags- og umhverfismálum. Þau verkefni eru tíma-og kostnaðarfrek og kalla á mikla staðbundna þekkingu í bland við sérfræðiþekkingu á sviði skipulags- og umhverfismála. Að mati sveitarstjórnanna er ekki nægilega mikið tillit tekið til slíkra aðstæðna í tillögunni, en viðbúið er að fleiri sveitarfélög verði mjög landstór. Því er lagt til að til viðbótar við byggðaframlag sem tekur mið af íbúaþróun verði sérstakt framlag til landstórra sveitarfélaga.
Í tillögunni er vikið að nýrri aðferð við útreikning svokallaðra skuldajöfnunarframlaga. Í breytingunni felst að miðað verði við skuldir A-hluta sveitarsjóðs við útreikning skuldajöfnunarframlaga. Að mati sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er eðlilegt að miða við samstæðureikning sveitarfélagsins, þ.e. bæði A og B hluta. Skuldir og skuldbindingar fyrirtækja í B-hluta eru háðar samþykki sveitarstjórna og með ábyrð sveitarsjóða. Í mörgum tilvikum eru skuldir B-hlutafyrirtækja með veð í skatttekjum sveitarsjóða. Í ljósi þess er óeðlilegt að undanskilja skuldir og skuldbindingar B-hluta fyrirtækja við mat á skuldastöðu.
Lagt er til að við ákvörðun skuldajöfnunarframlaga verði sömu aðferðum beitt og við útreikning á skuldahlutfalli skv. 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, líkt og gert er í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Þá leggja sveitarstjórnirnar til að heimilt verði að taka tillit til nauðsynlegs viðhalds og framkvæmda sem sveitarfélög hafa frestað til að standast ákvæði laga um rekstrarjafnvægi og skuldahlutfall. Sé það ekki gert taka framlögin ekki mið að heildarskuldsetningu þeirra sveitarfélaga sem vinna að sameiningu og aðstöðumunur því ekki jafnaður.
Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar eru stoltar af því að hafa gætt aðhalds í rekstri og fjárfestingum og haldið skuldum þannig í lágmarki. Sá árangur hefur þann ókost að viðhaldi og framkvæmdum er haldið í lágmarki og ljóst er að í báðum sveitarfélögum er uppsöfnuð viðhalds -og fjárfestingaþörf sem sveitarfélögunum þykir eðilegt að verði mætt.
Í tillögu að reglum um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs er kveðið á um að framlög skv. b-, e- og f- lið ákvæðisins skulu greidd á 7 árum. Vakin er athygli á að skv. e- lið, er lýtur að kostnaði við framkvæmd sameiningar og til að stuðla að endurskipulagningu þjónustu og stjórnsýslu, er gert ráð fyrir framlagi í allt að fimm ár frá sameiningu. Þá er kveðið á um það í d-lið að veitt sé framlag í fjögur ár, frá sameiningarári að telja, sem nemur þeirri skerðingu sem kann að verða á tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlögum í kjölfar sameiningar, sbr. 4. gr. Lagt er til að greiðslutími allra framlaga verði samræmdur og miðað sé við fimm ár frá sameiningarári að telja.“