Rýnihópar verkefnisins Nýsköpun í norðri hafa skilað af sér fyrstu niðurstöðum, en í hópunum er unnið að aðgerðaáætlunum sem byggja á tækifærum sem komið hafa fram á alls 12 íbúafundum sem haldnir hafa verið í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi síðustu mánuði.
Vinna rýnihópanna er skipulögð út frá mannauði, landnýtingu og umhverfismálum og var nýlega haldinn fjarfundur allra meðlima rýnihópanna, þar sem fyrstu niðurstöður voru kynntar. Mikill kraftur var í fundarmönnum og verður spennandi að sjá hvert vinnan fer á næstu vikum, en framundan er vinnustofa rýnihópa sem m.a. verður haldin í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.