Fyrri úthlutun úr Nýsköpunarsjóði Námsmanna 2020 var kynnt á dögunum og hlaut verkefni á vegum Nýsköpunar í norðri (NÍN) hæsta styrk sjóðsins að þessu sinni.
Verkefnið HÖNNÍN – Nýsköpun í Norðri: Nýting hönnunarhugsunar við greiningu og uppbyggingu innviða og tækifæra í Þingeyjarsýslu út frá markmiðum í loftslagsmálum og nýsköpun í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu hlaut styrk í 12 mannmánuði fyrir fjóra nemendur. Verkefnið er samstarf á milli Listaháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Þekkingarnets Þingeyinga og er hluti af verkefninu Nýsköpun í norðri, samstarfsverkefni Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Leiðbeinendur verkefnisins HÖNNÍN eru Rúna Thors, fagstjóri í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, Anna María Bogadóttir lektor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands, Rannveig Björnsdóttir forseti viðskipta- og raunvísindasviðs við Háskólann á Akureyri og Sveinn Margeirsson verkefnisstjóri NÍN.
Í verkefninu verður gengið út frá því að nýta aðferðarfræði hönnunar og þekkingu á líftækni í samtali við íbúa Þingeyjarsýslu. Þá verða markmið í loftslagsmálum og nýsköpun í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu áhersluatriði verkefnisins. Nánar tiltekið munu nemendur vinna með leiðbeinendum að framkvæmd aðgerðaáætlunar rýnihópa NÍN, en sú aðgerðaáætlun byggir á niðurstöðum 12 íbúafunda sem haldnir voru á vegum NÍN á tímabilinu ágúst 2019 - janúar 2020.
Verkefnið skiptist í tvo hluta sem nemendurnir fjórir vinna saman að. Annar hlutinn snýr að því að skoða og kortleggja stíga og upplifanir heimamanna og ferðamanna af göngu- og reiðleiðum á svæðinu. Nemendur munu jafnframt kanna leiðir til að vinna með ull sem dren í náttúrustíga. Í hinum hlutanum verða staðbundin matvæli skoðuð, en Matarskemman sem býður upp á aðstöðu til vinnslu kjötafurða, kryddþurrkunar og baksturs verður nýtt sem tilraunaaðstaða fyrir nemendur. Horft verður til þeirrar framleiðslu og ræktunar sem fyrir er á svæðinu en einnig skoðaðir möguleikar á nýjungum í samhengi við hugmyndavinnu íbúa og afrakstri íbúafunda NÍN.